Héraðssambandið Hrafna-Flóki

Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að sambandið hét í upphafi Ungmenna- og íþróttasamband Vestur-Barðastrandarsýslu. Það var stofnað árið 1944 og gekk þá í UMFÍ og ÍSÍ. Sambandið lagðist í dvala árin 1946-1950 en var endurvakið í apríl 1951. Það lagðist aftur í dá 1954.

Þegar Hafsteinn Þorvaldsson og Sigurður Geirdal fóru í útbreiðsluherferð um Vestfirði haustið 1970 var ákveðið að endurvekja sambandið. Endurvakning þess var undir nýju nafni, Héraðssambandið Hrafna-Flóki. Það er talið stofnað í febrúar 1971 samkvæmt bréfi HHF til ÍSÍ í janúar 1972. Héraðssambandið Hrafna-Flóki starfaði um tíma en svo fór sem fyrr að það lagðist í dvala.

HHF var svo endurvakið að nýju 15. maí 1980 og hefur starfað síðan. Á endurreisnarþinginu 1980 voru eftirtalin félög: Íþróttafélagið Hörður, Íþróttafélag Bílddælinga, Umf. Tálknafjarðar og Umf. Barðstrendinga. Um þetta má lesa í þinggerð HHF 1982 og Árbók Barðstrendinga 1975-1979, bls 207. Nú eru átta aðildarfélög innan HHF. En auk undantalinna félaga eru: Golfklúbbur Patreksfjarðar, Golfklúbbur Bíldudals, Skotíþróttafélag Vestfjarða og Fimleikafélag Vestfjarða.