Völuvöllur Bíldudal

Inni í botni Bíldudals er Völuvöllur. Völuvöllur er í fullri stærð með 400m hlaupabraut. Völlurinn er nefndur eftir Bílddælingnum Völu Flosadóttur sem sleit barnsskónum – gaddaskónum – á þessum velli við Bíldudal. Völlurinn var á sínum tíma reistur fyrir tilstilli Íþróttafélags Bílddælinga. Haustið 1985 var hafist handa við að tyrfa völlinn. Þegar nær dró sumri varð ljóst að völlurinn yrði ekki tilbúinn í tæka tíð því knattspyrnutímabilið var í þann mund að hefjast. Var þá brugðið á það ráð að hringja í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Skátunum var boðið gull og grænir skógar, heilar 50.000kr, til að koma og vinna heilan dag frá morgni til kvölds. 19 skátar mættu á svæðið og kláruðu málið í samstarfi við aðra sjálfboðaliða á svæðinu. Árið eftir hófust svo framkvæmdir við hlaupabrautina. Mölin var flutt í gámum með skipafélagi frá Reykjavík í alls fimm ferðum. Völlurinn þótti mjög framúrstefnulegur á sínum tíma og hefur þjónað iðkendum á svæðinu vel í gegn um tíðina.