Lýðheilsustefna HHF

Heilsa hverrar þjóðar er lykill að framtíðinni, undirstaða athafna okkar og möguleika. Áhrifaþættir lýðheilsu eru erfðir, heilsutengd hegðun, umhverfisþættir, félagslegt, efnahagslegt, menningarlegt og efnislegt umhverfi.

Öflugt samfélag byggist á góðri heilsu og líðan sem flestra. Það er því afar mikilvægt að starf íþróttahéraðs og íþróttafélaga nái til allra hópa samfélagsins. Mikilvægt er að lýðheilsa sé höfð að leiðarljósi í öllu sem sambandið tekur sér fyrir hendur því að þannig verður lýðheilsustefna hluti af samfélaginu en ekki eitt stakt verkefni.

HHF er í samstarfi við sveitafélög svæðisins í eflingu á aðstöðu til bættrar lýðheilsu. Framtíðarsýn HHF er sú að einstaklingar verði meðvitaðir um að þeir beri ábyrgð á eigin heilsu. Allir hafa tækifæri til að leika og starfa í fjölskylduvænu og heilbrigðu samfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri til að tileinka sér heilbrigðan lífstíl og vellíðan.

HHF leitast við að einstaklingar samfélagsins búi við öruggt og uppbyggilegt umhverfi þar sem áhersla er á bætta lýðheilsu.

HHF hvetur aðildarfélög sín til að hlúa að öllum iðkendum til jafns hvort sem um ræðir afreksfólk eða byrjendur. Lokamarkmið skal vera að einstaklingum sé kennt í gegn um íþróttastarf að hreyfing sé hluti af daglegu lífi þeirra umfram allt.