Þrír vaskir keppendur frá HHF tóku þátt í Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum á Sauðárkróki helgina 4.-5. júlí. Það má með sanni segja að Margrét María Leiknisdóttir, Fjölnir Úlfur Ágústssson og Tryggvi Sveinn Eyjólfsson hafi komið séð og sigrað. Alls unnu þau til sjö verðlauna. Margrét María fékk brons í kúluvarpi stúlkna 14 ára með kast upp á 8,78 m (3kg). Fjölnir fékk einnig brons í kúluvarpi með kast upp á 9,27m (3 kg). Fjölnir vann að auki til silfurverðlauna í æsispennandi spjótkastskeppni með kast upp á 31,17m (400g). Tryggvi Sveinn sem tók þátt í alls sex greinum fékk alls fjögur verðlaun. Hann varð íslandsmeistari í 80m grindahlaupi á tímanum 12,97 sek, þá fékk hann silfur í hástökki með stökk upp á 1,41m. Til viðbóar fékk hann brons í fyrrgreindri spjótkastkeppni þar sem hann kastaði spjótinu 30,75m (400g) og að lokum fékk hann brons í 600 metra hlaupi á tímanum 1.49:44 mín. Þess utan komst Tryggvi einnig í úrslit í 100 metra hlaupi og langstökki. Þrímenningarnir voru að vonum ánægð með sinn árangur á mótinu enda voru þau í sjöunda sæti á verðlauna töflunni (sjá mynd) af alls 17 félögum sem hlutu verðlaun. Sannarlega góður árgangur hjá þessum efnilegu krökkum.

Fjölnir Úlfur lengst til vinstri – Tryggvi Sveinn lengst til hægri með Thomas Ara Arnarsson frá Ármanni á milli sín. Verðlauna afhending úr hinni æsispennandi spjótkastkeppni þar sem Thomas tryggði sér sigur í sínu síðasta kasti.

Margrét María lengst til hægri að taka við bronsverðlaunum sínum í kúluvarpi 14 ára stúlkna